”Héraðsfundur Reykjavíkurprófastsdæmis eystra haldinn í Árbæjarkirkju 21. maí 2019 skorar á Alþingi og ríkisstjórn Íslands að leiðrétta sóknargjöld í þá upphæð sem þau eiga að vera samkvæmt lögum. Fundurinn skorar á stjórnvöld að gera upp skuld sína við söfnuði Þjóðkirkjunnar og önnur trú- og lífskoðunarfélög vegna skerðingar sóknargjaldsins undanfarin ellefu ár”.
Greinargerð:
Því miður hafa ekki enn borist neinar fréttir af því að í vændum sé leiðrétting á þeirri gríðarlegu skerðingu sóknargjaldsins sem viðgengist hefur frá árinu 2009. Og það jafnt fyrir það, þótt viðurkennt hafi verið af stjórnvöldum, að sóknargjaldið hafi verið skorið niður langt umfram þann niðurskurð, sem aðrir aðilar máttu almennt þola vegna efnahagshrunsins. Hefur þessi skerðing leitt til þess að sóknargjaldið er nú kr. 925 kr. á mánuði fyrir hvern gjaldanda, og lækkar þannig um 6 kr. frá fyrra ári, en ætti skv. lögum að vera 1649,72 kr., eða 724,71 kr. hærra á mánuði. Heldur ríkisvaldið því nú eftir um 44% af innheimtu sóknargjaldi. Það munar vissulega um minna. Og í þessu sambandi skal á það minnt að sóknargjaldið er í raun félagsgjald trúfélaganna, sem ríkið bauðst að fyrra bragði til að innheimta með sérstöku samkomulagi, sem leiddi til þess að núverandi lög um sóknargjaldið voru samþykkt samhljóða á Alþingi í tengslum við innleiðingu staðgreiðslu opinberra gjalda.
Sú mikla skerðing sóknargjaldsins sem átt hefur sér stað frá árinu 2009 og sem enn er að aukast nú tíu árum eftir efnahagshrunið hefur haft gríðarlega neikvæð áhrif á starf safnaðanna, prófastsdæmisins og kirkjunnar allrar. Nú er svo komið, að ákveðnir söfnuðir virðast endanlega vera að komast í þrot fjárhagslega. Sumir þeirra hafa ekki getað sinnt brýnasta viðhaldi eigna og eru nú, nærri ellefu árum eftir hrunið, enn að segja upp starfsfólki, lækka starfshlutfall og draga úr starfi. Enda hefur sóknargjaldið aðeins hækkað um 53 kr. á mánuði frá árinu 2008 eða um 6,1%. Á þessu tímabili hefur vísitala neysluverðs hins vegar hækkað um u.þ.b. 63,6%. En þetta merkir m.ö.o. að trúfélögunum er í ár ætlað að reka starfsemi sína á nánast sömu krónutölu og þá var eða með öðrum orðum á u.þ.b. helmingi þeirra rauntekna sem þau höfðu árið 2008. Má það vera öllum ljóst, að slíkt er í raun ekki hægt, enda vandfundinn sá aðili í þjóðfélaginu, sem orðið hefur fyrir annarri eins tekjuskerðingu á þessum tíma.Bent skal á, að heildarniðurskurður sóknargjaldsins í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra frá árinu 2008 nemur nú u.þ.b. 2,76 milljarði króna eða að meðaltali u.þ.b. 230 milljónum kr. á hverju ári. Og heildarniðurskurðurinn til allra safnaða Þjóðkirkjunnar er á sama tíma rúmlega 10,4 milljarðar. Það er því ákaflega brýnt, að sóknargjaldið verði leiðrétt þegar í stað.