Fundargerð héraðsfundar 2018

Héraðsfundur Reykjavíkurprófastsdæmis eystra, haldinn í Guðríðarkirkju 30. maí 2018

  1. Leifur Ragnar Jónsson leiddi helgistund.

 

  1. Gísli Jónasson prófastur setti fund. Ásta Ágústsdóttir var kosin fundarstjóri og sr. Guðrún Karls Helgudóttir var kosin ritari.

 

  1. Gísli Jónasson prófastur flutti ársskýrslu prófasts og fór yfir helstu atriði í starfi safnaðanna starfsárið 2017 – 2018. Farið var yfir starf héraðsprests og fræðslustarfið í prófastsdæminu, framkvæmdir í söfnuðunum og samsarfssvæðin svo eitthvað sé nefnt. Skýrslan er aðgengileg á heimasíðu prófastsdæmisins.

 

Umræða um skýrsluna:
Sr. Leifur Ragnar Jónsson spurði prófast út í sóknargjöldin. Hann vildi vita hvort sá „pirringur“ er prófastur nefndi í umfjöllun sinni að væri innan ráðuneyta vegna fjármála kirkjunnar gæti mögulega leitt til þess að sóknargjöldin yrðu hækkuð eins og vera ber eftir þá gríðarlegu skerðingu er varð á þeim árið 2009. Sóknargjaldið er nú kr. 931 á mánuði en ætti að vera kr. 1556. Gísli svaraði að vonandi yrði það með þeim hætti þó hann byggist ekkert sérstaklega við því.

 

Sr. Magnús Björn Björnsson spurði prófast hvernig söfnuðir gætu þrýst á ríkisvaldið þannig að það hækki sóknargjöldin eins og vera ber. Hann sagðist leiða söfnuð nú sem væri tæknilega gjaldþrota og að kirkjumálasjóður væri það einnig. Hann lagði ríka áherslu á hversu alvarlegt þetta væri. Hann sagði að búið væri að taka 12 milljarða af kirkjunni og að kirkjan gerði ekki neitt.

 

Dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson nefndi að kominn væri nýr kirkjuskilningur, að kirkjan væri ekki þjóðkirkja í þeim skilningi að meirihluti þjóðarinnar tilheyrði henni heldur væri kirkjan með fagnaðarerindið fyrir alla þjóðina.

 

Níels Árni Lund tók til máls og sagði frá því að fyrir mörgum árum hefði verið til Samband íslenskra samvinnufélaga og hann hafi haldið að það yrði alltaf til, væri ósnertanlegt. En það leið undir lok. Hann sagðist óttast hvað mörgum væri sama um kirkjuna, að kirkjur líði fyrir viðhaldsleysi o.fl.

 

  1. Ársreikningur Héraðssjóðs fyrir árið 2017 og fjárhagsáætlun Héraðssjóðs fyrir 2019. Sr. Gísli Jónasson fór yfir reikninginn og fjárhagsáætlunina.

 

  1. Umræða um ársreikning var engin og hann samþykktur samhljóða.

 

  1. Umræða um fjárhagsáætlun var engin og hún var samþykkt með samhljóða atkvæðum.

 

  1. Starfsskýrslur.

Allar skýrslur voru sendar út, en um er að ræða skýrslu Eldriborgararáðs, skýrslu héraðsprests, skýrslu Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma, skýrslu ÆSKR og skýrslu prests innflytjenda.

 

  1. Umræða um mál frá kirkjuþingi. Sr. Guðrún Karls Helgudóttir, kirkjuþingsfulltrúi, kynnti stöðu á kirkjuþingi en kosningar til nýs kirkjuþings fóru fram nú í byrjun maí.

 

  1. Leikmaður og varamaður hans voru kosnir í Héraðsnefnd til tveggja ára. Kosnar voru Benedikta G. Waage sem aðalmaður og Guðrún H. Birgis sem varamaður.

 

  1. Kynning á nýrri sálmabók. Sr. Jón Helgi Þórarinsson kynnti nýja sálmabók og sagði frá stöðunni á þeirri útgáfu. Útlit er fyrir að bókin komi ekki út fyrr en í upphafi árs 2019.

 

  1. Önnur mál.

Sr. Marnús Björn Björnsson bar fram tvær ályktanir. Sú fyrri er til     ríkisstjórnarinnar og hljóðar svo:

”Héraðsfundur Reykjavíkurprófastsdæmis eystra haldinn í Guðríðarkirkju 30. maí 2018 skorar á Ríkisstjórnina að leiðrétta sóknargjöld í þá upphæð sem þau eiga að vera samkvæmt lögum. Fundurinn skorar á stjórnvöld að gera upp skuld sína við Þjóðkirkjuna vegna skerðingar sóknargjalda undanfarin tíu ár”.

 

Síðari ályktunin er til kirkjustjórnarinnar og er svo hljóðandi:

”Héraðsfundur Reykjavíkurprófastsdæmis eystra haldinn í Guðríðarkirkju 30. maí 2018 skorar á kirkjustjórnina að skipa starfshóp sem þrýstir á Ríkisstjórn Íslands að leiðrétta sóknargjöld kirkjunnar.  Héraðsfundurinn hvetur kirkjustjórnina til að ganga fram af fullri alvöru og einurð til að fá leiðréttingu sóknargjalda.”

 

Undir þessar ályktanir rita Magnús Björn Björnsson og Högni Einarsson.

Báðar ályktanirnar voru samþykktar.

 

Sigrún Jónsdóttir formaður sóknarnefndar í Árbæjarkirkju kom í pontu og beindi því til héraðsnefndar að hún skoðaði hvort ekki væri hægt bjóða fleirum á árshátíð prófastsdæmisins en eingöngu sóknarnefndarformönnum, prestum og djáknum.

 

  1. Sr. Gísli Jónasson sleit fundi og fór með bæn.