Anna Guðrún Sigurvinsdóttir

 

Reykjavík, 29. apríl 2018

 

 

Kæri sóknarnefndarmaður,

 

 

Nú líður að því að sóknarnefndarfólk um land allt kjósi fulltrúa inn á Kirkjuþing næstu fjögur árin. Ég gef kost á mér til setu á Kirkjuþingi og vil með bréfi þessu kynna mig lítillega.

 

Frá því ég man eftir mér hef ég tekið þátt í kirkjustarfi á einn eða annan hátt. Síðast liðin 17 ár hef ég setið í sóknarnefnd Grafarvogssóknar og verið formaður síðustu þrjú árin. Á þessum 17 árum hef ég komið að ýmsu í kirkjustarfinu og tel mig þekkja starfsreglur og lög er viðkoma starfsemi í sóknum og almennt innan Þjóðkirkjunar nokkuð vel.

 

Þetta er í þriðja sinn sem ég gef kost á mér í kjöri til Kirkjuþings. Síðast liðin tvö kjörtímabil hef ég verið varamaður og verið kölluð inn nokkrum sinnum á báðum tímabilum. Aðallega til setu á þingum en nú í byrjun þessa árs tók ég sæti aðalmanns sem flutti úr prófastdæminu og starfaði með löggjafanefnd fram að vorþingi. Það var dýrmæt reynsla að fá að taka þátt störfum löggjafanefndar og fá tækifæri til að hafa áhrif á þau mál sem hún tók fyrir á þeim tíma en ég tel að reynsla mín úr Grafarvogssókn hafi komið að góðum notum þar.

 

Í hvert sinn, er ég hef verið kölluð inn á Kirkjuþing, finn ég hvað ég hef sterka köllun til að gera gagn innan Þjóðkirkjunar. Ég hef lengi haft áhuga á málefnum Þjóðkirkjunnar og vil hag hennar sem mestan. Kirkjuþing mótar það starfsumhverfi sem allir þeir sem starfa við kirkjur landsins starfa eftir, hvort sem það eru prestar, annað starfsfólk, sóknarnefndir eða sjálfboðaliðar. Það getur verið vandasamt að finna hinn gullna meðalveg þegar taka þarf ákvarðanir sem henta jafnt lítilli sókn og stórri sókn, nýrri sókn sem enn er að byggja upp starf eða eldri sókn sem er orðin rótgróin í starfi. Ég hef í gegnum tíðina, þegar taka þarf ákvarðanir, tamið mér það að hlusta á sjónarhorn annara, kynna mér mál frá fleiri áttum en bara minni og gert mitt besta til að taka ákvarðanir til heilla heildarinnar.

 

Fyrir næsta Kirkjuþingi liggur fyrir það vandasama verk að finna leiðir til að koma á samtali milli þjóðar og kirkju. Draga úr úrsögnum úr Þjóðkirkjunni og fá þjóðina til að átta sig á því góða starfi sem fram fer í kirkjum landsins. Finna leiðir til aukins samstarfs milli sókna og hvernig stærri sóknir geta stutt við minni sóknir. Það er mín skoðun að Þjóðkirkjan eigi að vera leiðandi í þjóðfélagsumræðu, taka slaginn þegar að henni er vegið og skýra sín sjónarmið óhikað.

 

Ég hef í 17 ár, fengið að starfa í blómlegri sókn með góðu fólki. Við höfum náð að halda uppi góðu starfi fyrir þá sem sækja til kirkjunnar á sama tíma og við höfum tekist á við erfiðan rekstur vegna skerðingar sóknargjalda og hárra lána. Við höfum valið eða kosið presta reglulega en við vorum fyrsta sóknin sem fór í gegnum allt ferlið í nýlegum starfsreglum um val og veitingu prestembætta. Sú reynsla sem ég hef öðlast á þessum árum tel ég að komi að góðum notum á Kirkjuþingi.

 

Af mínum persónulegu högum, þá er ég 47 ára, gift og á tvær dætur sem eru rétt að detta á fullorðinsár. Ég er með B.A. próf í bókasafns- og upplýsingfræði frá Háskóla Íslands og diplomu í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá Háskólanum í Reykjavik. Ég hef lengst af starfað við skjalastjórn og innleiðingu tölvukerfa. Ég er núna verkefnastjóri hópvinnukerfa hjá HB Granda og eru helstu verkefni mín þessa dagana innleiðing nýrra persónuverndarlaga og innleiðing skjalakerfis. Ég hef fjölbreytt áhugasvið fyrir utan kirkjumál, sinni hannyrðum og garðyrkju eftir því sem tími vinnst til. Jafnréttismál eru mér hugleikin og eins umhverfismál, endurvinnsla og endurnýting.

 

Mér þætti vænt um að fá þitt atkvæði í komandi kosningum og ég lofa að sinna Kirkjuþingsstörfum af heilindum, kirkjunni okkar til góða.

 

Kær kveðja,

Anna Guðrún Sigurvinsdóttir

Bakkastöðum 153,

112 Reykjavík

  1. 858 1002