Spurningar til framboða vegna sveitarstjórnarkosninga 2014

Spurningar til framboða vegna sveitarstjórnarkosninga 2014

 

Prófastarnir í Reykjavíkurprófastsdæmum eystra og vestra, hafa fyrir hönd prófastsdæmanna komið nokkrum spurningum á framfæri við þau framboð, sem bjóða fram lista í Reykjavík og Kópavogi í komandi sveitarstjórnarkosningum. Svör hafa nú borist frá velflestum framboðanna og birtast þau hér að neðan.Spurningarnar eru eftirfarandi:

 

1)   Hver er afstaða framboðsins til samskipta skóla og þjóðkirkju?

 

2)   Hver er afstaða framboðsins til dreifingar Nýja testamentisins til skólabarna?

 

3)   a)  Spurt í Reykjavík:

Hver er afstaða framboðsins til framlaga Reykjavíkurborgar í kirkjubyggingarsjóð Reykjavíkur, sem hafa verið óbreytt að krónutölu sl. fjögur ár?

b)  Spurt í Kópavogi:

Hver er afstaða framboðsins til stuðnings bæjaryfirvalda við kirkjubyggingar í Kópavogi?

 

Svör í Reykjavík

 

B – listi Framsókar og flugvallarvina:

 

1. Hver er afstaða framboðsins til samskipta skóla og þjóðkirkju?

Framsóknarflokkur og flugvallarvinir eru meðvitaðir um þær sterku rætur sem kristin trú og siður hefur í okkar samfélagi og menningu og þjóðkirkjan gegnir þar lykilhlutverki. Framboðið telur því að fræðsla um starfsemi þjóðkirkjunnar eigi að vera hluti af trúarbragðakennslu í skólum borgarinnar og að sú fræðsla geti a.m.k. að einhverju leyti átt sér stað í samstarfi við kirkjuna. Um leið verður að virða rétt þeirra barna og foreldra sem aðhyllast önnur trúarbrögð eða trúleysi og gera greinarmun á fræðslu og trúboði. Eðlilegt er að trúboð fari ekki fram innan veggja skólans, nema foreldrar hafi þá a.m.k. val um að börn þeirra sæki ekki þær kennslustundir.

 

2. Hver er afstaða framboðsins til dreifingar Nýja Testamentisins til skólabarna?

Löng hefð er fyrir því að fulltrúar Gídeon félagsins gefi skólabörnum eintak af Nýja testamentinu. Framboð Framsóknar og flugvallarvina telur að slíkt eigi að vera leyfilegt en að upplýsa eigi foreldra fyrirfram um slíkar heimsóknir, þannig að þau hafi val um hvort börnin þiggja slíkar gjafir og sækja þær kennslustundir.

 

3. Hver er afstaða framboðsins til framlaga Reykjavíkurborgar í Kirkjubyggingarsjóð Reykjavíkur, sem hafa verið óbreytt s.l. fjögur ár?

Við höfum því miður ekki skoðað það mál nægjanlega vel til þess að geta tjáð um þessi framlög. En við teljum eðlilegt að endurskoða þær forsendur sem liggja þessu framlagi til grundvallar.

 

D – listi Sjálfstæðisflokksins:

 

1. Hver er afstaða framboðsins til samskipta skóla og þjóðkirkju?

Við viljum auka umburðarlyndi, virðingu og víðsýni í skólakerfinu og endurmeta reglur um samskipti við frjáls félagasamtök í samráði við foreldra, nemendur og skólasamfélagið. Þetta á að vera val foreldra, skóla og barna.

 

2. Hver er afstaða framboðsins til dreifingar Nýja Testamentisins til skólabarna?

Þetta á að vera val skólans og foreldra, borgin á ekki að hlutast til í þessu.

 

3. Hver er afstaða framboðsins til framlaga Reykjavíkurborgar í Kirkjubyggingarsjóð Reykjavíkur, sem hafa verið óbreytt s.l. fjögur ár?

Kirkjubyggingasjóð Reykjavíkur þarf að efla.

 

R – listi Alþýðufylkingarinnar:

 

1. Hver er afstaða framboðsins til samskipta skóla og þjóðkirkju?

Leikskólar og grunnskólar eiga ekki að vera vettvangur trúboðs af neinu tagi og kirkjan á ekki erindi þangað frekar en önnur trúfélög, eða stjórnmálaflokkar ef út í það er farið. Ef spurningin nær líka yfir sunnudagaskóla sem kirkjan rekur sjálf, hefur Alþýðufylkingin ekki sérstaka skoðun á þeim.

 

2. Hver er afstaða framboðsins til dreifingar Nýja Testamentisins til skólabarna?

Hún á ekki að fara fram í skólum eða á skólatíma, ef það er það sem spurt er um. En Alþýðufylkingin hefur ekki skoðun á dreifingu þess t.d. í kirkjum eða safnaðarheimilum eða annars staðar.

 

3. Hver er afstaða framboðsins til framlaga Reykjavíkurborgar í Kirkjubyggingarsjóð Reykjavíkur, sem hafa verið óbreytt s.l. fjögur ár?

Þau framlög hafa lengi verið of há. Það er tímaskekkja að Reykjavíkurborg hygli trúfélögum með styrkjum úr kirkjubyggingarsjóði eða með því að fella niður gatnagerðargjöld, holræsagjöld o.s.frv.

 

S – listi Samfylkingarinnar:

 

1. Hver er afstaða framboðsins til samskipta skóla og þjóðkirkju?

Samfylkingin vill eiga gott samstarf við trúfélög í borginni. Myndast hefur breið samstaða um reglur um samskipti leik- og grunnskóla og kirkju sem voru all umdeildar þegar þær voru í mótun. Skemmst er að minnast þess að starfshópur á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins þar sem fulltrúar þjóðkirkjunnar áttu beina aðild skilaði af sér leiðbeinandi reglum um sömu mál í breiðri sátt og er gott samræmi milli þeirra og reglnanna sem í gildi eru í Reykjavík. Allir flokkar samþykktu í borgarráði endurskoðaðar reglur um samskipti skóla og kirkju, að fenginni reynslu fyrsta vetrarins og að teknu tilliti til athugasemda sem bárust.

 

2. Hver er afstaða framboðsins til dreifingar Nýja Testamentisins til skólabarna?

Reglur Reykjavíkurborgar gera ráð fyrir að trúarbragðafræðsla fari fram í öllum skólum í samræmi við aðalnámsskrá, en að dreifing Nýja testamentisins fari fram utan skólatíma.

 

3. Hver er afstaða framboðsins til framlaga Reykjavíkurborgar í Kirkjubyggingarsjóð Reykjavíkur, sem hafa verið óbreytt s.l. fjögur ár?

Kirkjubyggingar eru almennt ekki á verksviði sveitarfélaga en kirkjubyggingasjóður hvílir á gömlum grunni. Samfylkingin hefur ekki fjallað um að gera neinar breytingar á kirkjubyggingarsjóði.

 

T – listi Dögunar:

Ekki hafa borist svör.

 

V – listi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs:

Ekki hafa borist svör.

 

Þ – listi Pírata:

 

1. Hver er afstaða framboðsins til samskipta skóla og þjóðkirkju?

 Grunnstefna Pírata felur í sér meðal annars:

1.  Gagnrýna hugsun og upplýsta stefnu.  Þar er talið fram að….

1.2. ….,,Píratar móti stefnu sína í ljósi gagna og þekkingar sem aflað er óháð því hvort tillaga virðist í fyrstu æskileg eða ekki“. ….og að ,,Afstaða Pírata til hugmynda er óháð því hverjir fortalsmenn hennar eru.

1.4 ,,Réttur einstaklinga til að leita þess að verða upplýstir skal aldrei skertur.

Gagnrýnin hugsun er skilgreind samkvæmt íslenskri orðabók sem það að ,,vera athugul/ll á allar hliðar máls“.  Tengist hugtakið heimspekilegum hugmyndum meðal annars hvað varðar rök, röksemdafærslu og skilning ásamt íslenskri umræðuhefð.  Ýtarlegri  umfjöllun má finna á Vísindavef  Háskóla Íslands og mælumst við til þess sú grein sé lesin [,,Hvað er gagnrýnin hugsun?“ http://www.visindavefur.is/svar.php?id=65785].

2. Borgararéttindi

,,Borgararéttindi  eru lögbundin réttindi einstaklings til að taka þátt í lýðræðislegu samfélagi. Til borgararéttinda telst meðal annars kosningaréttur, trúfrelsi, málfrelsi, prentfrelsi, rétturinn til að taka þátt í friðsamlegum mótmælum.“

2.1. Píratar beita sér fyrir eflingu og verndun borgararéttinda.

 

3.  Friðhelgi einkalífsins.

Fyrir Pírötum snýst friðhelgi einkalífisins meðal annars um að:

3.1 …,,vernd hinna valdaminni frá misbeitingu hinna valdameiri.“ og felur í sér

3.3…,,rétt til…sjálfsákvörðunar“.

 

Píratar beita sér fyrir gagnsæi og vilja þá að

4.2…,,almenningur sé upplýstur og þar af leiðandi hæfur til lýðræðislegrar ákvarðanartöku“.

4.3 ,,Upplýsingar eiga að vera aðgengilegar almenningi“

4.5 ,,Til að einstaklingur geti borið ábyrgð þarf hann að hafa getu til að taka ákvarðanir“.

 

5. Upplýsinga og tjáningarfrelsi

5.1 ,,Takmörkun á frelsi fólks til að safna og miðla upplýsingum er óásættanleg, nema til verndar borgararéttindum einstaklinga“.

5.2. ,,Takmörkun á frelsi fólks til að tjá sig er óásættanleg, nema til verndar borgararéttindum einstaklinga“.

 

6. Beint lýðræði og sjálfsákvörðunarréttur

6.1. ,,Píratar telja að allir hafi rétt til að koma að ákvarðanatöku um málefni sem varða þá.“.

 

Í ljósi ofangreinds er það vilji Pírata að á Íslandi sé öflugt menntakerfi sem hálpi nemendum við að þroskast og veiti þeim styrk í að fást við tilveruna. Píratar vilja að nemendur séu sem best upplýstir og leggja áherslu á aukna meðvitund um aðferðafræði og samtal. Það þykir mikilvægt að nemendur fái tækifæri til að þroska hugsun sína og öðlist getu til að taka þátt í samfélagsumræðu. Þess vegna þurfa nemendur að hafa ,,læsi“ á upplýsingar og samhengi. Píratar líta svo á að það sé mikilvægt að manneskjan geri sér grein fyrir samhengi t.d. hvað varðar hugmyndasögulegt samhengi og umhverfi m.a. hvað varðar lífsstílsskoðanir og þess vegna leggja Píratar meðal annars til að aukin áhersla verði lögð á hugmyndasögu í skólastarfi. Mikilvægt er að nemendur geti haft aðgengi að upplýsingum um lífsstílsstefnur og trúarskoðanir, og að þeim sé ekki leynt af fordómum eða ótta.  Eins vilja Píratar að kennt sé um réttindi og skyldur í skólakerfinu og veitt sé kynfræðsla í samræmi við aldur nemenda þannig að nemendur eflist í námi til lýðræðislegrar þátttöku og lífsleikni en slík þátttaka byggist á samtali og virðingu, þannig vilja Píratar einnig að staður og stund sé hafður í huga þ.e.a.s. aldur og þroski nemenda.  Að ábyrgð forráðamanna og skólastjórnenda og stofnunar eins og kirkjunnar sé tekin með í reikninginn. Börn í leik- og grunnskólum eru í lagalegri umsjá forráðamanna sinna og skólakerfisins. Finnst Pírötum að samskipti skóla og kirkjunar þurfi að bera mið af þessu og þessvegna þyki gott að kirkjan sinni fjölskyldunni sem einingu fyrst og fremst, hjá þeim sem eru móttækilegir fyrir því og að hún beinti sér fyrir boðskap sínum um kærleiksrík samskipti í umhyggju og þjónustu og gangi fram í fordæmi.  Auk þess vilja Píratar í ljósi alls ofangreinds að nemendur geti fengið upplýsingar í samræmi við aldur og áhuga sinn og vilja forráðamanna sinna.

 

2. Hver er afstaða framboðsins til dreifingar Nýja Testamentisins til skólabarna?

Í ljósi alls ofangreinds og sérlega áherslu Pírata á gagnsæi samanber grunnstefnu Pírata 4.3 ,,Upplýsingar eiga að vera aðgengilegar almenningi“ þá álykta Píratar þar sem að hlutverk skólakerfisins er meðal annars að upplýsa nemendur um menningar- og sögulegt samhengi svo og nútímann að það sé ekkert að því að Nýja testamentinu sé dreift til skólabarna. Gott er að forráðamenn og kennarar séu upplýstir um þetta og vilja Píratar að börnin fái að þroska dómgreind sína og hæfni til hugsunar og ákvarðanartöku og fái að lesa NT sem og annað efni í umsjón forráðamanna heima við og í skólakerfinu. Í nútímanum eru allskyns bækur og efni mjög aðgengileg börnum og þörf er á að vera þeim innan handar þar sem oft er um að ræða málefni sem mjög misjafnar skoðanir eru um. Í þessu sambandi hafa Píratar t.d. talað mikið um einstaklingsöryggi hvað varðar upplýsingar á internetinu. Það þarf að kenna börnum á tilveruna og lífið þannig að þau efli eigin getu til að taka ákvarðanir meðal annars varðandi lífsskoðanir sínar. Forráðamenn þurfa að gæta að ofbeldi og kynlífi og samskiptum í fjölmiðlum og á internetinu og eins að því hvernig börn ganga að rituðu efni.

 

3. Hver er afstaða framboðsins til framlaga Reykjavíkurborgar í Kirkjubyggingarsjóð Reykjavíkur, sem hafa verið óbreytt s.l fjögur ár?

Söfnuðir sjái um fjármögnun bygginga og viðhalds þeirra (þumalfingursregla) en það má vel hugsa sér ýmsar undantekningar og þar með sérsamninga um fjármögnun, svo sem út frá byggingarsögulegu gildi annars vegar og/eða húsnýtingar þvert á trú og í þágu nærsamfélagsins.

 

Æ – listi Bjartrar framtíðar:

 

1. Hver er afstaða framboðsins til samskipta skóla og þjóðkirkju?

Við erum ánægð með að náðst hefur sátt um viðmiðunarreglur um samskipti skóla og trúfélaga. Í fjölmenningarsamfélagi eins og í Reykjavík þarf að taka tillit til ólíkra þarfa og þess vegna er mjög mikilvægt að allir sitji við sama borð og þekki sínar skyldur og sín mörk.

 

2. Hver er afstaða framboðsins til dreifingar Nýja Testamentisins til skólabarna?

Okkar afstaða er sú að það eigi ekki að dreifa Nýja testamentinu til skólabarna í gegn um skólann né nota skóla sem boðleið fyrir trúboð.

 

3. Hver er afstaða framboðsins til framlaga Reykjavíkurborgar í Kirkjubyggingarsjóð Reykjavíkur, sem hafa verið óbreytt s.l. fjögur ár?

Reykjavíkurborg hefur verið að leggja 12 milljónir til kirkjubyggingarsjóðs árlega auk þess er borginni skylt samkvæmt lögum að veita trúfélögum lóð og hefur borgin gefið þjóðkirkjunni til lóðir til kirkjubygginga um áratuga skeið.

 

Svör í Kópavogi

 

B – listi Framsóknarflokksins:

 

1. Hver er afstaða framboðsins til samskipta skóla og þjóðkirkju?

Framsókn styður sjálfstæði skóla í Kópavogi og erum hlynnt trúabragðafræðslu.

 

2. Hver er afstaða framboðsins til dreifingar Nýja Testamentisins til skólabarna?

Við styðjum það – rétt eins og fulltrúar annarra trúarbragða fái að dreifa sínum boðskap.

 

3. Hver er afstaða framboðsins til stuðnings bæjaryfirvalda við kirkjubyggingar í Kópavogi?

Í gildi er samkomulag milli ríkis og kirkju. Sveitarfélagið mun standa við sínar skuldbindingar eins og verið hefur.

 

D – listi Sjálfstæðisflokksins:

Ekki hafa borist svör.

 

S – listi Samfylkingarinnar:

 

1. Hver er afstaða framboðsins til samskipta skóla og þjóðkirkju?

Kópavogsbær samþykkti nýlega samskiptareglur fyrir leik- og grunnskóla við félög og stofnanir. Við í Samfylkingunni erum sátt við þær. Þar segir um samskipti við trúar- og lífsskoðunarfélög:
„Samskiptareglur við trúar- og lífsskoðunarfélög
1. Samskiptareglur þessar taka ekki til lögbundinnar trúarbragðafræðslu í grunnskólum né ákvæðis í lögum um leik- og grunnskóla um virðingu fyrir kristinni arfleifð íslenskrar menningar. Það er hlutverk skólanna að fræða
nemendur um ólík trúarbrögð og lífsskoðanir samkvæmt gildandi lögum og aðalnámskrá.
2. Trúar- og lífsskoðunarfélögum verði ekki heimilt að stunda starfsemi sína í húsnæði skólanna á skólatíma eða í Dægradvöl. Skólastjórnendur og kennarar geta hins vegar boðið fulltrúum trúar- og lífsskoðunarfélaga í heimsókn í skólana sem lið í kennslu samkvæmt gildandi aðalnámskrá. Trúar- og lífsskoðunarfélögum er heimilt að kynna barna- og æskulýðsstarf sitt í skólunum með sama hætti og íþrótta- og tómstundafélögum. Ákvarðanir um slíkar kynningar eru á ábyrgð skólastjóra.
3. Heimsóknir á helgi- og samkomustaði trúar- og lífsskoðunarfélaga á skólatíma fari fram undir stjórn kennara sem liður í kennslu um trú og lífsskoðanir samkvæmt gildandi lögum og aðalnámskrá. Slíkar heimsóknir eru liður í fræðslu og menningarmiðlun.
4. Undirbúningur fyrir hefðbundnar hátíðir og frídaga sem eru hluti af menningararfleifð þjóðarinnar heldur sessi sínum í skólastarfi.“
2. Hver er afstaða framboðsins til dreifingar Nýja Testamentisins til skólabarna?

Vísa í svar hér að ofan
3. Hver er afstaða framboðsins til stuðnings bæjaryfirvalda við kirkjubyggingar í Kópavogi?

Við gerum ráð fyrir að þetta verði með líkum hætti og verið hefur hingað til.

 

T – listi Dögunar og umbótasinna:

Ekki hafa borist svör.

 

V – listi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og félagshyggjufólks:

 

1. Hver er afstaða framboðsins til samskipta skóla og þjóðkirkju?

Öll trúfélög eiga að hafa sambærilegt aðgengi að skólum, en snerting trúfélaga við skóla á að vera á forsendum fjölskyldnanna og barnanna. Alltaf þarf að vera tryggt að börn séu ekki sett í óþægilega stöðu innan skóla vegna trúar eða trúleysis, og ekki má mismuna börnum eftir trú.

 

2. Hver er afstaða framboðsins til dreifingar Nýja Testamentisins til skólabarna?

Nýja testamentinu eða öðrum trúarritum ætti ekki að dreifa til barna í skólum nema með fyrirfram samþykki foreldra. Slíkt ætti ekki að gera sem hluta af kennslustund, heldur þannig að börnin (sem hefðu til þess leyfi og vilja foreldra) hefðu tækifæri á tilteknum degi og tíma til að nálgast slík rit. Ekki væri um trúarbragðafræðslu sem slíka að ræða í tengslum við afhendingu ritanna. Setja á samræmdar reglur í skólumum samskipti við trúfélög.

 

3. Hver er afstaða framboðsins til stuðnings bæjaryfirvalda við kirkjubyggingar í Kópavogi?

Slíkt þarf að gera á gagnsæan hátt, þannig að ljóst sé að allir hafi jöfn tækifæri til stuðnings frá bænum.  Að jafnaði ætti þó að gera ráð fyrir að framlög til trúfélaga gegnum ríkissjóð (sóknargjöld) sé meginreglan.

 

X – listi Næst besta flokksins:

Ekki hafa borist svör.

 

Þ – listi Pírata:

Ekki hafa borist svör.

 

Æ – listi Bjartrar framtíðar:

1. Hver er afstaða framboðsins til samskipta skóla og þjóðkirkju?

Samskipti hafa verið góð í Kópavogi. Síðustu dagana fyrir jólafrí hafa skólanemendur komið í sína sóknarkirkju hafandi stundum sjálf undirbúið einhverja dagskrárliði.

Sama er að segja um leikskólabörn þau setja á svið jólaguðspjallið og syngja saman. Þar sem of langt er fyrir börnin að ganga alla leið til kirkjunnar hafa leikskólarnir

leitað til presta að koma í heimsókn. Björt framíð telur mikilvægt að þessar heimsóknir séu valkvæðar. Þeir foreldrar og þau börn sem ekki vilja fara í þessar heimsóknir eiga rétt á

því að boðið sé upp á annan valmöguleika í skólanum þegar þessar heimsóknir fara fram.

 

2. Hver er afstaða framboðsins til dreifingar Nýja Testamentisins til skólabarna?

Skólarnir hafa leyft dreifingu Nýja testamentisins eins og verið hefur í áratugi á vegum Gídeonfélagsins.

 

3. Hver er afstaða framboðsins til stuðnings bæjaryfirvalda við kirkjubyggingar í Kópavogi?

Sveitarfélagið hefur litið jákvæðum augum til kirkna og safnaðarstarfs og stutt  það eftir efnum og ástæðum þegar þess hefur verið óskað.